Hoppa yfir valmynd
15. maí 2024 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál var til umræðu á Alþingi í vikunni þar sem atburðir síðasta almanaksárs eru raktir ítarlega. Í þriðja sinn kemur skýrslan út í skugga alvarlegra stríðsátaka í Evrópu en umfjöllun um hörmulegt ástand í Mið-Austurlöndum setur jafnframt mark sitt á skýrsluna. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hóf ræðu sína á að undirstrika mikilvægi alþjóðakerfisins og frjálsra viðskipta sem lagt hafa grunn að þeirri velsæld sem Íslendingar búa við í dag. Hún áréttaði stuðning Íslands við varnarbaráttu Úkraínumanna í innrásarstríði Rússlands sem er á sama tíma stærsta ógn við frið í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og árás á alþjóðakerfið sem sjálfstæði Íslands byggist á. 

„Fyrir litla þjóð sem byggir velsæld sína og sjálfstæði á öflugu alþjóðakerfi, opnum heimsviðskiptum og virðingu fyrir alþjóðalögum er ekki valkostur að sitja hjá,“ sagði utanríkisráðherra. 

Ráðherra ræddi sömuleiðis um þann harmleik sem á sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs sem haft hefur víðtæk samfélagsleg áhrif, og fleiri alvarlegar áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Hún undirstrikaði ákall Íslands um að hryðjuverk skuli fordæma, alþjóðalög skuli standa og grunnreglum um vernd borgara og aðgengi fyrir mannúðaraðstoð eigi aldrei að fórna. 

„Sterku ákalli Íslands og alþjóðasamfélagsins um vopnahlé hefur þó enn ekki verið svarað. Þúsundir óbreyttra borgara og barna liggja í valnum, neyðaraðstoð sætir enn óásættanlegum hindrunum og hungursneyð vofir yfir. Fjöldi gísla eru enn í haldi Hamasliða. Ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ákvörðun Alþjóðadómstólsins í Haag um bráðabirgðaráðstafanir hafa því miður litlu breytt,“ sagði ráðherra í ræðu sinni. 

Leiðtogafundurinn í Reykjavík

Leiðtogafundur Evrópuráðsins í Reykjavík í maí 2023 var án vafa stærsta einstaka verkefni síðasta árs og risavaxið verkefni fyrir litla utanríkisþjónustu. Á fundinum voru treyst í sessi grunngildi ráðsins, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið, sem endurspegluðust í Reykjavíkuryfirlýsingunni, lokaniðurstöðum fundarins og þeim meginreglum um lýðræði sem leiðtogarnir samþykktu að fylkja sér um og kenndar eru við Reykjavík.

„Stuðningur aðildarríkjanna við baráttu Úkraínumanna fyrir landi sínu og frelsi var þungamiðjan í umræðum og niðurstöðum fundarins. Leiðtogarnir ályktuðu í þágu brottnuminna úkraínskra barna og með stofnsetningu alþjóðlegrar tjónaskrár fyrir Úkraínu var stigið mikilvægt skref í átt að uppgjöri á þeim skaða sem Rússland veldur með ógeðfelldu framferði sínu,“ sagði Þórdís Kolbrún en fundurinn var lokastefið í hálfsárslangri formennsku Íslands í Evrópuráðinu frá nóvember 2022 til maí 2023.

Trúverðugur aðili að varnarsamstarfi

Öryggis- og varnarmál voru fyrirferðamikil í ræðu ráðherra. Þórdís Kolbrún undirstrikaði mikilvægi Atlantshafsbandalagsins, sem fagnar 75 ára afmæli í ár, og tvíhliða varnarsamningsins við Bandaríkin. Stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu er áfram mikilvægasta framlag lýðræðisríkja til að tryggja eigið öryggi og varnir en í því augnamiði samþykkti Alþingi nýlega mikilvæga ályktun um langtímastuðning Íslands við Úkraínu og á næstunni munu stjórnvöld skrifa undir tvíhliða samning við Úkraínu þar að lútandi. 

Samtímis glíma lýðræðisríki við fjölþáttaógnir, hættu á hryðjuverkum, og áskoranir sem fylgja hraðri tækniþróun og örum breytingum í alþjóðasamfélaginu. „Til þess að geta talist trúverðugur aðili að þessu öfluga varnarsamstarfi þarf Ísland að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra varna. Það má þó aldrei gleymast að slíkt framlag er fyrst og fremst í okkar eigin þágu. Ísland þarf að fjárfesta í eigin getu til að tryggja eigin öryggishagsmuni sem jafnframt eykur öryggi annarra bandalagsríkja,“ sagði ráðherra meðal annars.

Markviss framlög til þróunarsamvinnu

Ráðherra ræddi um þær ríku skyldur sem Ísland hefur að gegna í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Bæði með öflugu samstarfi við alþjóðastofnanir og í tvíhliða samstarfsríkjum Íslands í Malaví, þar sem 35 ár eru liðin frá því að Ísland hóf þróunarsamvinnu, Úganda og Síerra Leóne þar sem sendiskrifstofa Íslands var formlega opnuð í byrjun þessa mánaðar.

„Með markvissu framlagi til þróunarsamvinnu getum við stuðlað að aukinni velsæld, jöfnuði og stöðugleika. Alþjóðleg þróunarsamvinna verður þannig áfram ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og lykilframlag okkar til framfylgdar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Ríki huga að hagvörnum sínum

Hún gerði einnig vaxandi einangrunar- og verndarhyggju í alþjóðaviðskiptum að umtalsefni og þau átök og skautun á alþjóðavettvangi sem haft hafa margvísleg neikvæð áhrif á samofið efnahagslíf heimsins. 

„Ríki huga nú þegar að hagvörnum sínum, svo sem öryggi aðfangakeðja, og eru í auknum mæli meðvituð um hættuna af því að frjáls milliríkjaviðskipti umbreytist í pólitískt vogarafl. Þar eru samstarfsþjóðir okkar á Evrópska efnahagssvæðinu engin undantekning,“ sagði utanríkisráðherra.

Ráðherra lagði áherslu á góða framkvæmd EES-samningsins og styrka stöðu hans, fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir inn á markað ESB, til viðbótar við öflugt net viðskiptasamninga Íslands sem tryggja aðgang að erlendum mörkuðum og gera íslenskan útflutning samkeppnishæfari. Þar gegnir aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) mikilvægu hlutverki en á þeim vettvangi var undirritaður fríverslunarsamningur við Indland í mars síðastliðnum, sá fyrsti sem Indverjar gera við Evrópuríki.

„Samningurinn er þýðingarmikill fyrir viðskipta- og efnahagssamband Íslands við Asíu og felur í sér fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf með stórbættum markaðskjörum fyrir allar helstu útflutningsvörur landsins. Til að setja stærðina í samhengi búa álíka margir á Indlandi og í gjörvallri Afríku,“ sagði utanríkisráðherra.

Friður er lítils virði án frelsis

Að lokum vék ráðherra að þeim lífsgæðum sem Íslendingar búa við og byggst hafa upp á frelsi, mannréttindum, jafnrétti og jöfnum tækifærum. „Óhugsandi virðist að búa í samfélagi þar sem skoðanafrelsi, málfrelsi og fjölmiðlafrelsi er takmarkað, mannréttindi hinsegin fólks virt að vettugi og árangri í jafnréttismálum snúið til verri vegar. Því miður býr stór hluti mannkyns við slíkar aðstæður,“ sagði ráðherra.

„Í því samhengi er mikilvægt að hafa hugfast að hetjuleg barátta úkraínsku þjóðarinnar snýst ekki aðeins um að hrinda innrásarher Rússa heldur einnig um að öðlast tækifæri til að tryggja sömu lífsgæði og við njótum, meðal annars með aðild að samfélagi evrópskra lýðræðisþjóða. Þau vita sem er að friður er lítils virði án frelsis,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál kemur í þriðja sinn út sem samantekt í hefðbundnu þingskjalsformi samhliða skýrslu um utanríkismál sem miðast við almanaksárið. Skýrslu utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum